mánudagur

Káputexti

Eiríkur Örn Norðdahl, fæddur 1978, ber nú ábyrgð á bestu tíðindum íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa – bókin sem þú hefur í höndum hrekkur upp úr sömu helvítis gjótunni og værðarlúsin skreið áður oní til að búa sér ævikvöldið eftir að hún hafði tröllriðið veröldinni, gengið að ástríðunum dauðum og síðast sjálfri sér – bókin stekkur upp á velli í fullum herklæðum drykkjumanns sem lærði fag sitt ekki í japanskri fornöld heldur íslensk-amerískum samtíma, stekkur og rekur upp ramakvein á iðjagrænum áður þöglum völlum – þar hefst ramakveinið þegar fagurlega nýskornum Eiríki er brugðið að þöglum, sætum sólargeisla svo hann brotnar í appelsínugulan Bronco, lillabláan himin yfir Noregi en rautt og svart, rautt og svart.

Þú skalt lesa upphátt - enginn ætti að reka upp ramakvein þegjandi – ég mana þig að lesa upphátt úr bókinni jafnvel þó þú sért enn í bókabúðinni eða við hliðina á Eiríki eða á leiðinni heim og ef bókin titrar, titrar í vöðvunum og í beinum þér, jafnvel eftir að þú leggur hana niður og skolar af þér í baði … „ –Nú á hún að gera það?“ – eða hef ég þegar sagt of mikið? A poem should not … brothættu ljóð. – Nei! Kveðskapur Eiríks er ekki brothættur heldur tekur hann bæði tali, tónum og aðhrópunum. Eins og gotnesk kirkja sem rífur sig upp á grunninum, og gengur við staf, stígur þungt en stekkur upp og slær í hæl þegar síst varir því hún er kát þessi skepna og sjálfri sér fegin, kálfurinn sem gleymdist inni á bás fram á sumar – kálfur undan kúnni sem synti yfir Dýrafjörð þegar hún vildi ekki láta slátra sér, fyrsta ljóðabókin? Ekki sú blíðasta – blóðvolgt og organdi er fyrsta kvikindið úr skauti Nýhils. Fyrir hönd útgefanda og samferðamanna Eiríks óska ég honum og okkur til hamingju með þetta helvítis kvikindi!

Haukur Már Helgason,
ritstjóri.

Forljóð, grunntónn, þema

Sæll Mási minn

Fátt eitt skulum við hafa á hreinu, áður en lengra er haldið.

Munurinn á hagyrðingi og skáldi, felst í markmiðunum, ekki útkomunni. Rétt eins og hausaverkarinn og fiskflakarinn vinna báðir með fisk, en annar býr til hundamat meðan hinn gerir mannamat. Ekki það menn geti ekki mett sig á hundamat, en haldi þeir því til streitu er eins víst að fljótt fari að bera á slappleika og fölva á húð. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég ber ekki meiri virðingu fyrir hagyrðingum en húsamálurum (þó mér þyki reyndar nokkuð mikið til þess koma að vinna við að brjóta hausa, það er eitthvað lúmskt sjarmerandi).

Þegar ég nefni sjálfan mig skáld, er ég að gera tilkall til eilífðarinnar, og eigi það að standa undir sér, verð ég að standa undir yfirlýsingunum. Kemur þar til að auki að ég viðurkenni enga póstmóderníska skrípaleiki; ég ætla að nauðga lesendum mínum í augntóftirnar, og meina það öllum orðum. Ef ég segi: Æ, ég er nú bara eitthvað svona, en ég yrki. Þá hef ég engar væntingar til sjálfs mín, engar væntingar að standa undir. Ég skil ekki hvernig það getur verið flótti að leggja til atlögu við Ginsberg, Eliot, Whitman og Steinarr. Samkeppnin er hvergi harðari, og það þarf einstaka sál til að lýsa þeim stríði á hendur.

Ég er aukinheldur haldinn mikilmennskubrjálæði, eins og þú sjálfsagt veist. Ég held þó ekki að ég sé svo infisteraður að ég standist það ekki, til lengri tíma litið.

Hvorutveggja tel ég lífsnauðsynlegt, að skrifa af lífrænni þrá (og þá gefa út það sem bitastætt er, ég sé enga ástæðu til að gefa út leiðindi), og hitt að nostra. Nostrið er að safna í sarpinn. Eignast vitneskju um að maður vilji eitt, því það er betra en annað. Það er hætt við að menn gleymi að einbeita sér í greddunni. Þeir gleyma því líka oft, að sjálft séní hins ósjálfráða prósa, Jack Kerouac, hafði gefið út 1500 blaðsíðna einbeittan doðrant, þegar hann hellti sér í frelsið. Hann hafði, svo að segja, staðið sína pligt, gengið í gegnum tvo algera skóla: Agaðar skriftir, og lífshætti þess sem ákveður að lífið geti víst verið kúl. Farið ofaní svartholið, og komið út einhverstaðar í tóminu. Skammtafræði, eða eitthvað.

Ég ætla mér ekki að vera neinn meðaljón. Það kemur ekki til greina, hvorki í berlín né á íslandi. Það er reyndar rangt að segja að ég sé í stríði við Eliot og Ginsberg, ég á miklu heldur í stríði við Eyðilandið og Ýlfur. Í stríði við Tímann og Vatnið, og Song of the Open Road. Það er sagt að miði maður á tunglið, nái maður hærra en skjóti maður beint fram fyrir sig. Svo er líka að sagt að þeim mun hærra sem maður flýgur, þeim mun lengra sé fallið. En jæja, ég bíð þá bara uppá það. Ég skal þá bara falla og brenna upp í gufuhvolfinu, eða ef örlögin ætla mér það hlutskipti, þá skal ég springa í flugtaki. En ég ÆTLA að leggja af stað. Fjandakornið hafi það, ég er lagður af stað. Andskotinn hafi það.
Síðan þeysti Egill upp úr sér spýju mikla og gaus í andlitÁrmóði, í augun og nasirnar og í munninn, rann svo ofan um bringuna.

(Egils-Saga)
1. lota

Blótað

(Niður árinnar, tvö aðskilin ólík hljóð; löng grönn grenitrén teygð upp um jörðina að norskum lillabláum himni barnslegum eins og hjalið upp úr landsmönnum)

Í gærkvöldi stóð Pan í kofanum hjá mér og hlýjaði sér við eldinn af vörum kabyssunnar –ég stökk í nið árinnar því ég var drukkinn og leiður á stöðnuðu blóðinu í æðum mér– og nú er Pan stunginn af, situr sjálfsagt í felum milli trjánna með flautuna lafandi milli lappana og bíður þess að nóttin slái takt í trén svo stríða megi mér að nýju.

Verði dans! verði söngur! verði drykkur! Hér er bokka! –verði bokka!– það er bokka, segi ég og veit ekki betur en mér sé gott þar sem ég klóra mér í hvirfilinn kroppa í hamfarir flautuleikarans; Dans, söngur, og hér er mey sem ætlar að leyfa mér að leggja sig ef ég drep mig við brjóst hennar enn eina nótt.

Á meðan vil ég bara vera niður árinnar, ég vil bara teygja mig upp um jörðina og brenna í kabyssunni, láta blása mér útum flautuna, og ég vil bara lifa að sjá morgunsárið! Lifa af að sjá morgunsárið.

...og orðið var Clint

Öllum að óvörum
reið haikan um sveitir
með allt á hornum sér,
búin beittum eggjum,
og tók að höggva bragarhætti
hægri vinstri.

Í minni pokann létu
kynstrin öll af atómljóðum,
höfuðstafirnir vegnir með veggjum
blæddu stuðlum um strjúpann.

Kviðlingur einn um ástina
laugaði hvarma sína,
einmana á skítugum bedda
skíttur út næturgreiða,
lygin var megn og
hann dó þrátt fyrir það.

Máttugustu ljóðabálkar
–jafnvel allsráðandi dellur–
lágu út úr sér iðraðir,
augljósir, drepnir æ ofaní dagsins aí,
jafnvel þeim var ekki eirt lífs.

Hliðstæður, andstæður,
endurtekningar,
merkingarleysur, stúfar,
uppskafningar
og lágkúrur
stundu í takt við
gný dauðans
þegar húsum reið
japanskur bragarháttur
með krosslagða fætur,
eitt orð yfir annað
af allt að því óskammfeilinni
Ró.

Síðust féll haikan sjálf á hnén,
rak upp stríðskvein,
lyfti sveðjunni hátt yfir höfuð sér,
og rak sig í gegn.

Esjan (með allt á hornum sér)

I

Snemma morguns þegar drykkjunni lýkur skríðurðu heim niður hlíðarnar og skjálfandi (hvers konar eiginlega helvítis skáld höndlar ekki nokkurra daga drykkjutúr???)– þegar ég mæti aftur til vinnu viku síðar nýrakaður baðaður geðklofinn og sofinn kurteis bendi túristunum á fjall sem frægur íslendingur reisti hér í denn, nýkominn úr fylleríistúr frá Noregi, reisti fjall og reið sjálfum sér í rassgatið með því–

Ekkert gamanmál þetta að ganga upp í mót með bokkurnar á bakinu uppljómaður framkvæmdum upp hjalla þessa glaða fjalls – Við kýldum hvor annan í mesta bróðerni, frussuðum hvor á annan í mesta bróðerni, ultum niður brekkurnar og lágum hálfgrátandi við fjallsrætur öskrandi ástaryfirlýsingar í mesta bróðerni– klífum ekki fjöll því okkur líður betur sitjandi en standandi og beinlínis herfilega gangandi uppímót

(Robert Bly mælist til þess að karlmenn skeyti skapi sínu á jörðinni en skilur ekki að eigi höggin að innihalda merkingu verða þau að skella á kjömmum þeirra sem okkur þykir vænst um – okkur verður að standa á sama)

Vindurinn rekur ekki kýrnar heim það verðum við að gera sjálfir vindurinn rekur öldurnar upp bæjarlækinn gefur landinu gúmorren og hvæsir „Þú lítur út eins og róni! Hvað á ég að fara með þig svona útlítandi? Sjálfur treysti ég mér ekki inná Kaffi Austurstræti” skrúfar niður bílrúðuna veifar keyrir aftur heim það rýkur úr púströrinu eins og salti núið í sárið

–(eftir situr þú og enginn til að keyra þig heim)

Og þér líður eins og Anton Helgi hafi ort þig, kjánalegt að vera ljóð en ekki sköpunarverk vera fjall en ekki málverk víðáttubrjálað mar og ísaldarbólga á kinnbeini landsins– uppí rassgatinu á íslenskum víkingi! strand úti á landi

II

Komdu uppí sveit kysstu brönugrösin og drekktu te úr grjóti því Stúlkur borgarinnar eru bara gulir sleikipinnar þegar sól rís og ég rís bara svona líka stæðilegur á fætur með geirvörtur í augunum– út af barnum sem er yfirgefinn eins og fjöllin– hleyp út og sting mér oní gjótu til að vera þar alltaf núna –kem aldrei aftur– ég nálgast aldrei dyrnar að kompunni minni án þess að gnísta tönnum þess sem vildi sjá endalok næturinnar önnur

Aftur til náttúrunnar, sný aftur til náttúrunnar og ligg á hnjánum eins og Whitman: dái fíngerð blöð yðar ó Náttúra þegar tíu sentimetra hátt vatnsfallið glutrar sér milli grjóta– rúlla mér upp á tvo fætur í svefnpokanum og hoppa samfættur fyrir hornið til að vera viss; vera viss að ég sé nú einn nema svanirnir og nema blaðlúsin og vatnsfallið nema rólegheiturnar og nema grasmaðkurinn og moldin og nema tunglið nema ég

Orgía um vor

Ljúfa ljúfa elska, er fagurgalinn berjabróðir blómavinur skríkj og tvítt-tvít svíf höndum þöndum bít greinar af elsku syng á haus undir söðli og tvítt-tvít undir greinunum og tvítt-tvít í mosanum og tvítt-tvít-tví!!!!!! ég er galinn-galinn með laufgaðan sprota í limsstað hanagalinn skýt honum í moldina og blómgast og sprett svo sæði drýpur af blöðum tví!!!!!!! úr jörðinni tví!!!!!!! vaxa galnir fagurgalar með fagurlaga geislabauga úr spanskgrænu um fingurna tvítt!!!!!! vængi!!!!!! og sofum öll þreytt eftir asnaskap og amstur sofnum sofum sofið vöknum fagurgalnir á þöndum höndum.

[Nafnlaust]

Í litlum bæ
er lítið hús
lítið hús
lítið hús.

Sendibréf

Systir, sannlega segi ég þér:

Orðin eru eins og englar í höfði mér, djöflar og væringjar, sem drepast úr tæringu á lyklaborðinu; ég sakna myrkursins frá því í vetur.

Einhver hefur hleypt pörunum lausum nú í vor, því þau kastast rjóð eftir tjörninni með lappir uppí loft og limina máttlausa í þessari ást þessari angan nýrra blóma saman eftir tjörninni fyrir augum mér alltaf vor þó langt sé liðið á sumar.

Engillinn minn, stúlkan sem á að vera í parinu mínu, eftir tjörninni niður Hringbraut og uppí rúmið mitt, er þarna eftir tjörninni og niður Hringbrautina en villist einhverstaðar á leiðinni, heldur sjálfsagt að ég sé ekki hér, ætli henni sé ekki vorkunn greyinu, stór sæng sem ég sef undir í háa rúminu mínu brynjaður bríkinni voninni virðingunni minni.

Ég minnist ekki á þig, hvernig þú hafir það eða annað, á mér engan mannasið, hla-hlæ kannski þegar við hittumst loks í vetur vina, hla-hlæ og læt þig vita að mér þykir vænt um þig í skáldinu mínu og hjartanu mínu þó ég vilji kannski heldur gera annað; sjáðu ég get alls ekki logið!

Á orðið ekkert og hlýt að krefjast kraftaverks! uppljómunar! vitrana! Guðs! og hamingjum mér til handa! bestu menn vilja meina –mér er einna síst hlátur í huga– að allt sé mögulegt.

Heimsendapestir

Frostrósir þiðna af lendum mér svo leysir niður læri og tær

Ó hve dirrindýrðarlega dásamlegt að eiga heim, minn snjótittlingur er sólskríkja á ný! og valhoppandi míg ég á sölnuð sólblómablómin, brenni kornfleksgrasið með stækkunargleri svo reyklyktin rekur burt úr nösum mér fúna blauta glaðlega hjarðlykt vorsins –heimurinn er gamall sokkur í apríl, margístoppaður og stökkur undir fingri.

Á vorin hugsa ég um að drepa guði, og fæ standpínu eins og yfir dásemdardapurri draumsnauðri mellu eða stelpu sem er bara að biðja um það (ekki eins og ég sé ástfanginn, heldur eins og eitthvað sé að mér).

Veröldin er ljúf og ég er ekki sem verstur ógirtur og soginn af sólblómablómum –væri mér gert að vera blóm, yrði ég vatnalilja með froski sem skýtur rótum í vatnsbotn og slitnar eins og í brúðumyndinni um Þumallínu –auðmýkt – – lífið snýst um að sýna auðmýkt!

Að lokum hlýtur einhver að hafa fengið nóg, þeir tætluðu vorið –frekjulega og stjórnlaust (eins og þeir væru bara að sýna sig)– og klufu það í eindir sínar [Kristur reif sig lausan af krossinum, lét sér blæða út á kirkjugólfinu, sagðist hafa fengið nóg] og sumardagurinn fyrsti rann upp með brjálstormum hríð og fjúki, leit ekki dagsins ljós fyrir óveðrinu

Nú dansa englar í kornfleksgrasinu. Nú dansar blóðugur mannssonur við mannana börn. Nú dansar hvert dirrindí

Skáldatími

(fyrir nosotros)

Hvað með að
liggja í rúminu
í dag?

Liggja bara með
tærnar uppí loft,
og vera ekki
einu sinni skáld
í einn dag í dag.

Tek af mér
sixpensarann
og set’ann á
náttborðið,
hef ekki áhyggjur
af því að
ég skrifi!

Stórfenglegt!

Mér líður mikið
betur.

Eins og blóm að
vori
maður kominn undan
vetri skáldsins!
Maður á ný!

Kreppi mig
saman ofaní sængina
hjúfra mig og
manndæmist,
krulla uppá táslurnar

(ég er annars með svo
stórar tær að það verður að
teljast meira en lítið vafa-
samt að kalla þær táslur)

Og þegar ég velti
mér á hina hliðina
dettur mér í hug
hvort það sé
þess virði að vera
ekki skáld lengur.

Það viðurkennist að
ég hef fjárfest ansi
ótæpilega í skáldinu mínu,
keypti fyrir nokkrum árum
hatt fyrir vestan.

Hafði fyrir því að
finna eina kvistherbergið
í Reykjavík þar sem
hvorki er boðið uppá
baðaðstöðu né
internetaðgang.

Hef hent öðrum hvorum
sokki, svo ekki geti það
gerst fyrir tilviljun
að ég klæðist
tveim samlitum.

Pípan er loksins tilreykt,
og ég státa stoltur af
einhverjum fallegasta
reykingarhósta
norðan alpafjalla.

Svo lagðist maður í klæðnað skálda,
stúderaði hatta og kápur,
fann sig svo
í hæfilegri blöndu
af Sjón og Degi Sigurðarsyni,
blöndu sem minnir
merkilega mikið á
menntskæling úr
vesturbænum.

(sjálfsagt var þetta eitthvað
vanhugsað hjá mér)

Ég á mér líka fortíð
(dökka dökka fortíð,
voða sjúkar ástarsorgir og
óímunnberanlegar drykkjutarnir).

Æ, mikil ósköp! Kannski maður
fari bara frammúr skáld í dag,
helli uppá Espresso Altura.
Tendri reykelsiog líti í góða bók.
2. lota

[Nafnlaust] nr.2

Suma daga er
ekkert að gera
utan að mála þakið
á húsinu sínu
rautt ofaní
rautt.

Andstuttur

Ég var þriggja ára
og sat í tröppunum
yfir eldavélinni.

Mamma hrærði
í pottunum,
þá var hún enn
hávaxnari en ég
og hún var með
sítt brúnt krullað hár.

„Hvers vegna ertu svona
andstuttur, drengur?
Varstu að hlaupa
uppi á lofti?”

„Hvað er andstuttur?” spurði ég.

„Það er þegar maður
andar of hratt, vinur.”

„Hvað er anda?” spurði ég.

„Það er svona:” hún dró
djúpt að sér andann.

Ég hermdi. Hvumsa.

„Það anda allir,” sagði hún.
„Ef maður hættir að anda
deyr maður.”

Í tuttugu ár
hef ég haldið því
fyrir sjálfan mig
að ég dró ekki
andann fyrr en
þriggja ára.

Bróðir minn

Nafli, sagði ég
og lyfti upp nátttreyjunni
svo glytti í gripinn.

Hann tók bakföll
af hlátri,
lamaður
eitt stundarkorn,
en snarjafnaði
sig strax og
naflinn hvarf
aftur undir
treyjuna.

Nafli, endurtók ég .

[Nafnlaust] nr. 3

Það lýsir innum gluggann minn
köldum sumardegi kastað gegnum
rúðuna.

Ég sé niðursuðuverksmiðju
sem fór á hausinn og börn
að leika sér.

Bróðir minn (e)

Bróðir minn komst í kast við lögin,
braut rúður í slökkvibíl.
Pabbi kom askvaðandi inn á stöð
beint úr vinnunni
tók drenginn í faðm sér
og sagðist skyldu slá allar löggurnar í rot
ef þær létu sér nokkurntímann detta í hug
að angra fjölskylduna aftur.

Stuttu seinna stal ég klámblaði úr bókabúð
í trausti þess að pabbi stæði
við gefin loforð.

Bókstafstrúarhræðsla

Þegar ég síðan hætti að borða kjöt
gerði mamma bara
meira af meðlæti
en pabbi sagði
að ég yrði að passa mig
því annars gæti ég
endað í sértrúarsöfnuði
eða hlekkjaður
við kjarnorkuver
eða eitthvað
þaðan af verra.

[Nafnlaust] nr. 8

Án þess að vita það
án þess að nokkur vissi það nema ég
lá ég á rúminu sem hún kom undir í
meðan systir mín
reyndi að útskýra
fyrir foreldrum okkar
að hún væri með barn í mallanum.

[Nafnlaust] nr. 9

Mig minnir að
við höfum alltaf
staðið saman.

En það gæti hafa verið
til að finna
–hvor á öðrum–
betri höggstað.
3. lota

Varir skáldsins

-tileinkað Besta Vini Ljóðsins

Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið!

Að skáldið þagni
myndlíkingin deyi
stuðlar falli í höfuðstafi
því tíminn og rímið
eru ekki rétt gerð
(hver hefur rúm
fyrir tíma og rím?)

Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið!

Orðin hljóma ekki lengur
eins og ég meini þau;
drukkna í suttungamiði
ældum af vörum skáldsins
sem yrkir ljóð
eins og hann reiknar
og lesandinn tekur fyrir
nefið því hann veit betur
en játar það ekki fyrir
nokkrum manni.

Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið!

Kórónum svo verkið:
kljúfum bókmenntafræðinginn
í herðar niður
fleygjum ritstjóranum
fyrir ljónin
og brennum allan
kveðskapinn.

Æsingaræða

Mér er afskaplega mikið niðri fyrir
og er undir það búinn að grípa til örþrifaráða.

Leitið ekki fróunar í ljóðum mínum.

Ég krefst þess að vera tekinn alvarlega.

Rimbaud sagðist hafa misst sveindóminn með hundi.

Sjáið fyrir ykkur stríðhærðan unglinginn ríða hundi: Hundurinn engist og ýlfrar. Honum blæðir innanísér, innanísig. Fyrirmyndarnemandinn Arthur grettir sig þegar hann fær það.

Dýraklám hreyfir við fólki. Vona ég.

En svona í alvöru. Reynið að sjá þetta fyrir ykkur: Kona að æla brundi úr hesti. Þetta er ógeðslegt. Ég er að reyna að gera ykkur skiljanlegt að heimurinn er viðbjóðslegur staður. Fólk deyr, og margt þeirra fyrir aldur fram.

Þið eruð enn ekki farin að taka mig alvarlega. Ég er að hugsa um að rífa úr ykkur tunguna og míga niður kokið á ykkur. Þið eruð ógeðsleg.

Það er skuggsælt bakvið skítinn

Sundurslitnar keðjur af fingurkjúkum
þurrar bryggjustultur
blekpenni úr gegnheilu tré
og dauður maður í léreftspoka
(hann var ótukt hvort eð er)
og ég skúra gólf mér til lífsviðurværis.

Lausaleiksdrulla

–drullan sem fyllti mælinn

Vatnið er blautt í dag,
og það er góður dagur til að
brenna sálir
kveikja elda.

(Pervert! Pervert!)

Þó við rífum allan heiminn upp á rótunum,
og fleygjum öllu draslinu í ruslið,
bendir einhver fljótlega
á að vatnið sé aftur blautt
(hafi það nokkrusinni
hætt að vera blautt.)

(Pervert!)

Nei annars
brennum ekki sálir
kveikjum enga elda
þeir loga hvort eð er illa
í blauðu vatni.

(Pervert!) . . .

Gull

Æ ólund og angist og öfund og
annað.

Allt hvað af tekur!
allt hvað af tekur!

Hvar eru þau gullin mín kvenna
gullin mín gullið mitt
-mitt guðið mitt gauðið mitt?

Ó minn æri, upp læri læri
ljóðin mín, meðan þjóðin
mín, afskipta þjóðin mín
bandar út höndunum
bullið mitt bullið mitt hvar geymist bullið
mitt betur en hér kæra kvendi
kona og þjóð.

Og svo hærra
yfir fjöllunum
fjarskana dölunum
djúpunum,
hærra!
hrópið hærra!

Burgeis og þó og þý og
þú á spena
gullsins míns bullsins míns!

Bandarandabýbýbý -jájá elsku gullið mitt gullið mitt
ég skal geyma guðið þitt
ef þú vilt reisa krossinn minn
hnýta allan lárvið og párvið
um skápinn í skáldinu
með gullið í bullinu.

19du aldar rómantík fyrir þá sem misstu af henni

-sagan af því þegar Jónið slapp

Kysstu mig
segir hann
með augunum.

Kyssa þig
með augunum?
spyr hún þá.

Hann hikar:

Sko, það sem ég á við er...

Snýr sér:

Strákar,
sjáiði þetta!

Hann stendur á fætur.

Stígur uppá stól.

Stingur sinni teskeiðinni upp hvora nös.

Hoppar á einum fæti.

Gerir spilagaldra.

Talar afturábak.

Og setur loks vinstri lófa í hægri handarkrika skellir niður olnboganum svo úr verður: „prump”við mikinn fögnuð viðstaddra.

Glóran

Af lestarstöðvum
á lestarstöðvum.

(var ég drukkinn?)

Frá einni konu
til annarar.

(þessa línu orti ég ekki – það var annað skáld).

Flytjist maður
búferlum
milli landa
fyrir stúlku
(bara stúlku
ekki ástmey)
er viðbúið að
maður finni
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aldrei
aldrei aftur
glóruna.

Sjálfsmorðið

Föstudag fyrir tveim vikum fór ég til Reykjavíkur. Með mér í flugvélinni var strákur, vinur hans Vals bróður, Maggi. Ég sníkti af honum eld fyrir utan flugstöðina, svo flugum við til Reykjavíkur. Ég elti hann út úr flugvélinni. Ef ég hefði haldið áfram að elta hann í svona rúman sólarhring, hefði ég kannski líka verið barinn til dauða fyrir utan spotlight. En ég er sá sem slapp. Ef ég hefði farið með Mella til Ísrael, er líklegt að ég hefði verið með honum og við verið handteknir saman. En nei, aftur er ég sá sem slapp. Ef ég hefði aldrei kynnst Amöndu, væri ég kannski kennari í Afríku. Ef ég hefði aldrei hætt með henni, væri ég kannski giftur maður í Texas með barn á leiðinni. En, nei, ég er sá, akkúrat, ég er hann hinn sem slapp.

Lífið er bara of fullt af svona hlutum til að þetta geta orkað á mann sem ljóð. Maður er alltaf í einhverjum svona kringumstæðum. Á morgun kemur Melli heim, og Maggi verður grafinn á sunnudaginn.

Ástarljóð

Ég sat flötum beinum
með hönd undir kinn
í lautartúr á gólfinu
át sardínur með
fingrunum
og stúlku á hnjánum
í geirvörtum.

Sólin glutraði
sér innum gluggann
minn grönnum
værum taumum
gullnum um
freknótta hálsakotið hennar
ástmeyjar minnar;
það var brauð að brjóta
og ég saup úr kaffibolla
dýrsilfrað hvítvín og
þessa stund þarna
þessa stund þegar
rauða rauða hárið hennar
nam við gólf.

Hún kom erlendis að
langa vegu
til að borða fiskinn minn
landsins míns með
fingrunum og mér,
hvítvín og snittur;
ég hélt ég elskaði hana
(en maður gleymir svo fljótt)
og kannski elskaði hún mig líka.

Ég kyssti hana á kinnina
strauk henni um vangann
og setti typpið mitt uppí
hana og inní hana, og hún brosti
brosinu sínu blíðasta,
eins og fyrir kurteisissakir.

Maður ríður vini sínum

Vegurinn rennur undan mér
og ég renn með rútunni.

Ég er orðinn svo vanur að fara
að mér finnst ég
varla hafa verið
nokkurstaðar
lengur.

Ég var varla kominn út
úr henni í morgun þegar
ég þaut af stað
-afkynlífaður, náði ekki að pakka
-það er eitthvað fjári óréttlátt
við að fá ekki burstaðar í sér
tennurnar að morgni dags.

Og hér er ég mættur í nýtt land
og hér er rúta utanum plussklætt rauðsæti
og hér eru stórar rúður undir landslagið.

Hér er ekki jafn grýtt en svei mér þá
ef trén eru ekki fleiri.

Ég sé ekki neitt fyrir trjátoppum.

Er það þá hingað sem ég er horfinn?
Í þetta skiptið?
Ekki það ég kvarti.
Þetta er ágætt.

Í gær drakk ég frítt
í morgun svaf ég hjá
og í dag er ég
farinn.

Öll Konan

Það er dagrenning í göturæsunum vætlar vatn; ég er atvinnulaus, léttur á því og ég elska þig með hár úr þér vafið í naflakuskið –dreg hárið úr flækjunni, set það upp í mig bít í sundur og gleypi þó hvorki sé það gott né þægilegt,
Hún las aldrei bækur en hann þuldi fyrir hana valda kafla og góð ljóð –heilu vagnhlössin af húslestrum– hún sofnaði ekki annars heldur lá andvaka –henni blæddi stundum með augun blómguð; blæddi rauðsprungnum vakandi glyrnum drafandi svefnblálituðum vörum í morgunsárið og þegar eilífðin pírði augun sást merla á kistulokið marargrænt og jarðarfararsöngvar ræsktu sig –hún var ekki feig sjáðu til– þegar svartholið féll saman inní kulnaðar taugar nýhilistans, hins nýja sveins –féll þar tómið inní og um sjálft sig– og þau (tómin) gerðu ekki lengur upp við sig hvenær kona lifir og kona lifir heldur skelltu glösum framræstu blóði Appolons –því dó nokkru sinni kona? Ég man ekki lengur hvernig ljóðið endar. . .
Og hvað er ég svo við enda dags? þegar rokið hefur skriðið aftur oní gjallarhornið og nætur í lestum með konum á lendum eru alheimurinn og allt að rassskella skáldið með fjaðurbrúskum í indælu –það stirnir á blómið í hári þér –hunang drýpur hunang og þú dóst ekki lengur heldur lifðir en þér leiddist stundum og veltir við steinunum í fjörunni hvar skrifað stóð í þarann: „Var hvað ekki hvenær hvers virði?”
Æið í lok mánaðar klýfur fjöllin í herðar niður með berum handarjaðri –andartak við andlok og kistan sunkar niður til helvítis –brennur viður brennur! maður brennur! kona! og augnablikið drukknar í eilífðinni þegar enginn drýpur höfði í sorg dýfir höfði í hafið þar sem hafið lognar og ruggar; rennur ekki því hvergi sést til lands
Það er ekki slæmt það er Gott og Gott og Gott –jafnvel Betra svona fyrst á morgnana en síðar er náttar og maður/kona liggur eitt á koddanum í nýfallinni hordögg –því það er svo ljúft að gráta í myrkrinu þegar maður/kona heyrir ekki handa sinna skil fyrir skítalyktinni; æ það dropar á og gárar óþrifið dagstofugólfið.
Þvaður! Bull! Þvæla! Tvatl og ófrjóir spádómar! Gröf? eða Dauði? eða Eilífð? Ekki orð! Engin orð að ætlast minna skilninga tíma til að átta sig . . . Rugl! Lærði aldrei að heyra þessi orð utan hugtaka aðal abstraksjóna (sé ekki í sjálfum mér hugsun, kem að landinu handan svartholsins þar er ekkert ég sé ekkert hafi ég nokkru sinni kunnað það kann ég það ekki lengur; erum við villtir, vinur? það er margt að hræðast en hafðu samt ekki áhyggjur því hér er hvorki ég né þú til að gera okkur mein.) .
–(deyðu)
.
Sagðist skyldu yrkja mig í örmum þínum og elska mig í ljóðum þykkpúlsandi stríðljóðum enda heimsenda bara fyrir mig þegar ég var hjá þér – (hvíslaðu, hvíslum) – svo blikkaði ég augunum og þú tókst oní þig typpi og tussur með slef og sæði krampasafa orgasmíska gleði gleiða drusla niður kinn niður höku niður háls niður brjóst niður kvið oní nafla þar sem hvíldi hárið í naflakuskinu. . .
.
–(hvíslaðu) .
Hér er þrotinn dagur. Hér er síðasta orðið í ljóðinu sem enginn man hvernig endar. Hér er ég kominn aftur uppúr gjallarhorninu.