Andstuttur
Ég var þriggja ára
og sat í tröppunum
yfir eldavélinni.
Mamma hrærði
í pottunum,
þá var hún enn
hávaxnari en ég
og hún var með
sítt brúnt krullað hár.
„Hvers vegna ertu svona
andstuttur, drengur?
Varstu að hlaupa
uppi á lofti?”
„Hvað er andstuttur?” spurði ég.
„Það er þegar maður
andar of hratt, vinur.”
„Hvað er anda?” spurði ég.
„Það er svona:” hún dró
djúpt að sér andann.
Ég hermdi. Hvumsa.
„Það anda allir,” sagði hún.
„Ef maður hættir að anda
deyr maður.”
Í tuttugu ár
hef ég haldið því
fyrir sjálfan mig
að ég dró ekki
andann fyrr en
þriggja ára.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home