mánudagur

Káputexti

Eiríkur Örn Norðdahl, fæddur 1978, ber nú ábyrgð á bestu tíðindum íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa – bókin sem þú hefur í höndum hrekkur upp úr sömu helvítis gjótunni og værðarlúsin skreið áður oní til að búa sér ævikvöldið eftir að hún hafði tröllriðið veröldinni, gengið að ástríðunum dauðum og síðast sjálfri sér – bókin stekkur upp á velli í fullum herklæðum drykkjumanns sem lærði fag sitt ekki í japanskri fornöld heldur íslensk-amerískum samtíma, stekkur og rekur upp ramakvein á iðjagrænum áður þöglum völlum – þar hefst ramakveinið þegar fagurlega nýskornum Eiríki er brugðið að þöglum, sætum sólargeisla svo hann brotnar í appelsínugulan Bronco, lillabláan himin yfir Noregi en rautt og svart, rautt og svart.

Þú skalt lesa upphátt - enginn ætti að reka upp ramakvein þegjandi – ég mana þig að lesa upphátt úr bókinni jafnvel þó þú sért enn í bókabúðinni eða við hliðina á Eiríki eða á leiðinni heim og ef bókin titrar, titrar í vöðvunum og í beinum þér, jafnvel eftir að þú leggur hana niður og skolar af þér í baði … „ –Nú á hún að gera það?“ – eða hef ég þegar sagt of mikið? A poem should not … brothættu ljóð. – Nei! Kveðskapur Eiríks er ekki brothættur heldur tekur hann bæði tali, tónum og aðhrópunum. Eins og gotnesk kirkja sem rífur sig upp á grunninum, og gengur við staf, stígur þungt en stekkur upp og slær í hæl þegar síst varir því hún er kát þessi skepna og sjálfri sér fegin, kálfurinn sem gleymdist inni á bás fram á sumar – kálfur undan kúnni sem synti yfir Dýrafjörð þegar hún vildi ekki láta slátra sér, fyrsta ljóðabókin? Ekki sú blíðasta – blóðvolgt og organdi er fyrsta kvikindið úr skauti Nýhils. Fyrir hönd útgefanda og samferðamanna Eiríks óska ég honum og okkur til hamingju með þetta helvítis kvikindi!

Haukur Már Helgason,
ritstjóri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home